Óttast flótta úr stéttinni

Á annað hundrað lögreglumanna beið niðurstöðu gerðardómsins fyrir utan hús …
Á annað hundrað lögreglumanna beið niðurstöðu gerðardómsins fyrir utan hús ríkissáttasemjara í gær. mbl.is/Júlíus

Lögreglumenn voru þungir á brún í gær eftir að þeim var kynnt niðurstaða gerðardóms um kjör þeirra. Þeir sem rætt var við sögðu dóminn, sem felur í sér 4,25% launahækkanir, líkt og samið var um í vor á hinum almenna vinnumarkaði, auk þrettán þúsund króna hækkunar á álagsgreiðslu, lítilsvirðingu við stéttina og til þess fallinn að auka brottfall og draga úr nýliðun.

„Ég er hundóánægður með þessa niðurstöðu og greiddi atkvæði gegn henni,“ sagði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna (LL). Mikil depurð hafi verið í lögreglumönnum. „Þeir hreinlega trúa því ekki að ríkisvaldið skuli koma fram við þá með þessum hætti sem hér birtist.“

Snorri segist óttast enn frekara brottfall úr stéttinni en síðan 2007 hafi það verið töluvert. „Menn eru að fara úr stéttinni í frekara nám og í önnur og betur launuð störf á hinum almenna vinnumarkaði. Það er líka jafnljóst að þegar betur fer að ára í þjóðfélaginu verður gríðarlegt brottfall úr stéttinni.“

Á þriðjudaginn munu formenn lögreglufélaga og stjórn LL funda um niðurstöðu gerðardómsins og ákveða til hvaða aðgerða verður gripið í framhaldinu. Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Lögreglufélag Vestfjarða samþykkti ályktun á fundi í gærkvöldi þar sem framkoma ríkisvaldsins gagnvart lögreglumönnum er fordæmd. 

Niðurlæging

„Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt þar sem störf þeirra eru talin ómissandi á öllum tímum.  Þetta hefur ríkisvaldið nýtt sér með því að semja ekki við lögreglumenn í tæpa 300 daga, knýja fram gerðardóm og standa síðan að dómi sem lögreglumenn telja vera niðurlægingu við starfsstéttina," segir m.a. í ályktuninni. 

Ljóst sé að þessi niðurstaða muni strax valda neikvæðri þróun í löggæslu og óttist félagið stórfelldan flótta lögreglumanna úr stéttinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert