Sveitarfélög vilja selja land

Stórólfsvöllur í Rangárþingi eystra.
Stórólfsvöllur í Rangárþingi eystra. www.mats.is

Ástæða þess að leigusamningur sveitarfélaganna Ásahrepps, Rangárþings eystra og Rangárþings ytra við félagið Stórólf ehf. um leigu á landi Stórólfshvols var ekki endurnýjaður, er sú að Ásahreppur og Rangárþing ytra vilja selja sinn hluta af landinu.

Landið Stórólfshvoll er lögbýli en innan þess hafði Stórólfur 400 hektara á leigu undir starfsemi sína. Leigusamningurinn, sem var upphaflega gerður árið 1960 til 50 ára, rann út á síðasta ári. Nú hefur Héraðsdómur Suðurlands fallist á kröfu héraðsnefndar Rangæinga um að ábúendurnir á Stórólfsvelli verði bornir út.

Guðfinna Þorvaldsdóttir, formaður héraðsnefndar Rangæinga og oddviti Rangárþings ytra, staðfestir að til standi að selja landið.  Hún segir það einfaldlega ekki hlutverk sveitarfélagsins að standa í leigurekstri á bújörðum. Mikið fjármagn sé bundið í landinu þar sem það liggi að þéttbýlinu á Hvolsvelli. Landið liggi einnig að þjóðvegi eitt og Eystri-Rangá. Sveitarfélagið í Rangárþingi ytra standi ekki vel fjárhagslega og leiti því allra leiða til að fá inn fjármagn til að greiða niður skuldir.

Guðfinna segir að  Rangárþing eystra hafi lýst yfir áhuga á að kaupa landið en þannig sé hugmyndin að landið verði sameinað í eigu sveitarfélagsins. Þar sé væntanlega verið að vinna að tilboði. Fleiri aðilar hafi lýst yfir áhuga á að kaupa Stórólfshvol og þar á meðal  séu leigjendurnir Stórólfur ehf. Komið hafi fram í við viðræðum við Rangárþing eystra að þeir hafi hug á að selja frá sér það land sem þeir þurfi ekki fyrir sína starfsemi og séu opnir fyrir að ræða við leigjendurna um sölu á hluta landsins til þeirra.

Ásahreppur og Rangárþing ytra eiga 49% af landi Stórólfshvols á móti 51% eignarhluta Rangárþings eystra.  Guðfinna segir að nú sé Stórólfshvoll innan Rangárþings eystra sem fari með skipulagsvaldið. Landið sé væntanlega framtíðarbyggingarland Hvolsvallar en það nái alveg að byggð. Guðfinna gat ekki gefið upp áætlað markaðsverðmæti Stórólfshvols að svo stöddu.  

Samkvæmt heimildum mbl.is  hefur sambærilegt land í kring selst á um 500.000 kr.  til 600.000 kr. hektarinn. Einnig má minna á að fyrir um 30 árum keypti Hvolshreppur hluta af landinu og nýtti undir þéttbýli á Hvolsvelli. Söluandvirðið þá var m.a. nýtt til að byggja elliheimili á Hvolsvelli.

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í gær að héraðsnefnd Rangæinga væri heimilt að bera Stórólf ehf. út af af landinu Stórólfshvoli og Stórólfsvelli sem Stórólfur ehf. hefur haft á leigu.

Þegar spurt um hvernig fari með mannvirkin á jörðinni, sem Stórólfur á, og bótarétt þeirra vegna segist Guðfinna ekki geti svarað því að svo stöddu.

Ábúandi á Stórólfsvelli borinn út

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert