Ber til baka frásögn Evrópuþingmanns

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir í yfirlýsingu að hann hafi ekki látið nein orð falla á fundi með evrópskum þingmönnum um að hann myndi ekki veita heimild um að fram færu viðræður um landbúnaðar- og sjávarútvegskafla aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Fréttastofan Agence Europe hafði í gær eftir rúmenska Evrópuþingmanninum Cristian Dan Preda, að á fundi með evrópskum þingmönnum á Íslandi hefði Jón sagt hreint út, að hann myndi ekki veita neina heimild til viðræðna um landbúnaðar- og sjávarútvegskaflann, einfaldlega til að stöðva viðræðurnar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag:

„Morgunblaðið birti í gær frétt þar sem vitnað er til orða sem Evrópuþingmaðurinn Christian Dan Pedra átti að hafa látið falla  eftir fund evrópskra þingmanna með undirrituðum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fyrr í mánuðinum.

Þar segir Dan Pedra um orð undirritaðs:

„Hann [Jón Bjarnason] sagði við okkur mjög opinskátt að hann myndi ekki veita heimild til að fram færu viðræður um landbúnaðar- og sjávarútvegskaflann, beinlínis í þeim tilgangi að stöða viðræðurnar."

Af þessu tilefni er rétt að það komi fram að engin þau orð féllu á fyrrnefndum fundi sem gefa tilefni til þeirrar fullyrðingar sem hér birtist. Þvert á móti fullvissaði ég hina evrópsku þingmenn um að þrátt fyrir að annar stjórnarflokkanna væri andvígur aðild ynnu öll ráðuneyti ríkisstjórnarinnar að aðildarumsókninni í samræmi við ákvörðun Alþingis.

Þegar hinsvegar kemur að kröfunni um aðlögun íslenskrar stjórnskipunar að ESB meðan á samningum stendur er aftur á móti ljóst að þingmenn og ráðherrar VG standa þar í móti enda er það ekki í samræmi við samþykkt Alþingis. Þessu gerði ég hinum erlendu þingmönnum grein fyrir.

Af málflutningi margra  evrópskra gesta sem hingað hafa komið er ljóst að þeir telja að fyrirfram aðlögun Íslands að ESB sé ekki aðeins sjálfsögð heldur forsenda áframhaldandi viðræðna. Þar með jafngildir það í þeirra huga stöðvun aðildarferlis að standa á móti aðlögun.
 
Sem ráðherra er mér skylt að leggja samþykkt Alþingis til grundvallar og sama ber öðrum ráðherrum að gera. Í þessu máli er hafið yfir allan vafa að fyrirfram aðlögun að ESB áður en kosningar um málið hafa farið fram gengur gegn samþykktum Alþingis og er því ekki fær leið nema þingið taki málið fyrir að nýju.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka