Sendinefnd frá bresku borginni Hull er nú stödd hér á landi til að ræða um viðskiptaleg og menningarleg samskipti. Hafa Bretarnir meðal annars boðið Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands aðstöðu í borginni til að æfa fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum á næsta ári.
Að sögn breska útvarpsins BBC eru fulltrúar borgarstjórnar Hull og Alan Johnson, þingmaður Verkamannaflokksins í borginni, hér á landi og áttu þeir m.a. fund með fulltrúum íslenskra stjórnvalda.
BBC hefur eftir Johnson að náin tengsl Hull við Ísland muni nýtast íslenska ólympíuliðinu vel. „Ég held að þetta sé enn ein vísbendingin um hve tengslin eru sterk og þeim myndi líða eins og heima hjá sér innan um fólk sem þekkir vel til Íslands," segir Johnson.
Ólafur Rafnsson, formaður ÍSÍ, segir við BBC að ákvörðun verði tekin á næstu vikum. Hann segir að verið sé að skoða ýmsa möguleika, ekki aðeins í Bretlandi heldur öðrum löndum. „En að mínu mati er þetta góður kostur," segir hann.