„Samningurinn er á sömu nótum og aðrir hafa verið að semja en við fáum inn vissa viðurkenningu fyrir álag í störfum okkar,“ segir Páll Ólafsson, formaður FÍ, og segir að verið sé að ganga til undirskriftar.
Hefur þannig verkfalli félagsráðgjafa, sem hefjast átti á morgun, verið aflýst.
Að sögn er Páll nokkuð ánægður með samninginn en mikilvægt var að ná inn viðurkenningu á álagi við störf.
„Við viljum ekki fara nánar út í þetta fyrr en búið er að kynna samninginn fyrir okkar félagsmönnum,“ segir Páll en félagsfundur fer fram kl. 11 á morgun í Borgartúni.
Niðurstaða kosninga um samninginn verður að sögn Páls að liggja fyrir eigi síðar en 6. október.
Hjá borginni vinna 106 félagsráðgjafar sem starfa m.a. á þjónustumiðstöðvum borgarinnar, hjá Barnavernd Reykjavíkur og á skrifstofu Velferðarsviðs.