„Að koma svona fram við farþega sína er þessu flugfélagi til háborinnar skammar, “ segir kona í færslu á Facebook þar sem hún rekur málsatvik í flugferð sem móðir hennar ásamt fleiri eldri borgurum fór í gær með Iceland Express. Fleiri taka þar undir sögu hennar. Iceland Express segir félagið hafa fylgt reglum.
Í upphafi var fjögurra tíma töf á fluginu vegna bilunar og segir konan farþega hafa þurft að bíða í vélinni á meðan endalaust var verið að telja farþega, þar til þeir voru allir sendir út á gang og farið í nafnakall.
Þegar aftur var komið inn í vél hafi verið tilkynnt vélarbilun. Fram kemur að þegar komið var á loft var tilkynnt eftir klukkutíma flug að millilent yrði í Írlandi til að taka eldsneyti. Þar hafi tekið við hátt í tveggja klukkutíma bið og áhöfnin hafi gripið til þess ráðs að læsa salernisaðstöðum sem í vélinni voru og farþegum tilkynnt að þær yrðu læstar á meðan ró kæmist á í vélinni. Segir konan að móðir sín sem er á áttræðisaldri hafi eins og margir á hennar aldri þurft á aðstöðunni að halda en alltaf verið vísað til sætis. Hafi henni verið farið að líða mjög illa en loks fengið að fara eftir mikið þóf við áhöfnina. Fólkið hafi svo lent klukkan sjö í morgun, tíu tímum á eftir áætlun.
Segir félaginu skylt að fara að reglum
„Þetta eru reglur sem okkur ber að fara eftir eins og öðrum flugfélögum,“ segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi hjá IE. „Það er mjög leiðinlegt að þessi töf hafi orðið í gær en þetta var óviðráðanlegt og við verðum að fylgja reglunum.“ Hann segist hafa eftir áhöfninni að flestir farþegar hafi verið ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu.
Heimir segir að heildartöf á Shannon-flugvelli á Írlandi hafi verið um 50 mínútur. Áhöfninni hafi borið að fylgja JAR-reglum eins og öllum öðrum flugfélögum og þær séu skýrar að því leyti að flugáhöfn beri að halda neyðarútgöngum hreinum, þannig að fólk verði að sitja á meðan dælt sé eldsneyti á vélina. Dyr verði að vera opnar á meðan þar sem reglur segi að það verði að vera hægt að rýma vélina á níutíu sekúndum. Fólk hafi fengið að nýta salernisaðstöðu um leið og dyrum var lokað.
Varðandi töf í Keflavík hafi komið í ljós að fjöldi farþega um borð hafi ekki stemmt við innskráningu og því hafi orðið að grípa til þess ráðs að kalla fólk aftur inn í flugstöð og hafa nafnakall. Þá hafi komið í ljós að tveir farþegar hafi skráð sig á netinu en það hafi ekki skilað sér í kerfið. Vélar megi ekki fara á loft nema innskráningar- og farþegalistar stemmi. Það ferli hafi tekið um tvo og hálfan tíma og fólk hafi langt í frá beðið inni í vél í fjóra tíma. Þar sem hafi verið búið að loka fyrir þjónustu inni í flugstöð hafi verið ákveðið að láta fólkið bíða um borð og láta það borða á meðan litið var á vélina.
Tilkynning IE frá í gær vegna tafa