Samningafundur félagsráðgjafa hefst hjá ríkissáttasemjara nú klukkan 14. Formaður kjaranefndar, Vilborg Oddsdóttir, er bjartsýn um að samningar náist í dag.
„Það verður reynt til þrautar að ná samningum og erum við nokkuð bjartsýn um að við náum því þannig að ekki þurfi að koma til verkfalls. Ég held að allir aðilar séu á því að ná lausn sem við getum sætt okkur við,“ segir Vilborg Oddsdóttir, formaður kjaranefndar félagsráðgjafa.
Hún segir viðræðurnar hafa gengið ágætlega hingað til og verði fundað eins lengi og hægt er í dag til að ná lausn í málinu, en annars kemur til verkfalls félagsráðgjafa í fyrramálið. „Maður fer ekki af stað í umræður nema mjög vongóður,“ segir Vilborg.
Kröfur félagsráðgjafa eru að fá sömu laun og verið er að greiða sambærilegum starfsstéttum innan borgarinnar. Fara þeir fram á 38% hækkun. Launakrafan felur einnig í sér ósk um sanngirni fyrir félagsráðgjafa sem starfsstétt og viðurkenningu á mikilvægi þess starfs sem þeir vinna.
Félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru 108 talsins. Þeir starfa flestir hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar, barnavernd og á skrifstofu velferðarsviðs.