Töf á brottför flugvélar IE

Rúmlega fjögurra klukkustunda töf varð á brottför flugvélar Iceland Express frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna tæknilegra örðugleika.

Samkvæmt upplýsingum frá félaginu átti flugvélin að fara í loftið klukkan 16:50. Skömmu fyrir flugtak komu í ljós erfiðleikar með annan hreyfil flugvélarinnar og var henni þá snúið aftur að flugstöðvarbyggingunni. Nokkurn tíma tók að skoða hreyfilinn og fór flugvélin ekki í loftið fyrr en klukkan 21.

Iceland Express segist hafa gert ráðstafanir til að koma farþegum, sem bíða brottfarar í Alicante, á hótel og muni sjá þeim fyrir þeirri þjónustu sem reglur geri ráð fyrir. Brottför frá Alicante hefur verið frestað til seinnipartsins á morgun þannig að farþegar þurfi ekki að bíða í flugstöðinni þar sem takmarkaða þjónustu er að fá og nái að hvílast áður en haldið er heim á leið.

Samkvæmt áætlun áttu farþegar frá Alicante að lenda í Keflavík klukkan 4:40 í fyrramálið  en nú er áætluð koma þeirra til Keflavíkur um eða upp úr klukkan 20 annað kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert