Hægt væri að bæta þjóðarhag um 46 milljarða króna á ári með því að útrýma atvinnuleysinu en um 11 þúsund manns eru án vinnu. Atvinnuleysið kostar nú atvinnulífið 20 milljarða króna á ári en frá hruni hafa verið greiddir 70-80 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.
Þetta kom fram á opnum umræðufundi um atvinnumál sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir í hádeginu. Yfirskrift fundarins var Ryðjum hindrunum úr vegi - atvinnulíf í uppnámi.
Í ágúst spáði Seðlabanki Íslands 1,6% hagvexti á Íslandi á næsta ári. Í síðustu viku var svo greint frá lækkaðri hagvaxtarspá AGS fyrir heimsbúskapinn sem mun hafa neikvæð áhrif hér á landi. Þetta þýðir að áfram verður mikið atvinnuleysi á Íslandi og lök lífskjör nema brugðist verði við, hindrunum rutt úr vegi og ný atvinnusókn hafin.