Lögreglumenn á Suðurnesjum velta fyrir sér að segja sig úr óeirðasveit lögreglunnar. Málið verður rætt á félagsfundi Lögreglufélags Suðurnesja sem fer fram klukkan fjögur í dag.
Hjálmar Hallgrímsson hjá Lögreglufélagi Suðurnesja segir að óánægja sé með greiðslur fyrir starfið í óeirðasveitinni. „Lögreglumenn í óeirðasveitinni hafa ekkert fengið aukalega greitt fyrir það að standa fyrir utan Alþingishúsið og vera grýttir með mjólkurafurðum og fleiru. Þeir fá sama borgað og sá sem situr við skrifborð úti í bæ. Það er mikil óánægja með það. Allir þættir í okkar starfi eru einskis metnir," segir Hjálmar.
Tuttugu og fjórir lögreglumenn frá Suðurnesjum sinna starfi í óeirðasveit lögreglunnar.