Vill fjárfesta annars staðar á Norðurlöndum

Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu víðar á Norðurlöndum.
Huang Nubo vill byggja upp ferðaþjónustu víðar á Norðurlöndum. Ernir Eyjólfsson

Kaup Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum gæti orðið stökkpallur fyrir fasteignakaup hans annars staðar á Norðurlöndum. Kemur þetta fram á fréttaveitunni Bloomberg.

Kínverski milljaðramæringurinn  hefur á stefnuskránni að byggja upp ferðamannastaði  í löndum eins og Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð innan fimm ára. Það verður þó ekki jafn umfangsmikið og verkefni hans hér á landi.  „Ég mun kaupa land og byggja upp ferðamannasvæði á Norðurlöndunum, en það verður ekki eins umfangsmikið og á Íslandi,“ sagði Huang.

Huang býst við því að ríkisstjórn Íslands taki ákvörðun um kaup hans á Grímsstöðum á næstu tveimur vikum. „Þessi samningur er góður og hann er líka góður fyrir vöxt minn annars staðar á Norðurlöndum. Ef það hefði ekki orðið efnahagskreppa í heiminum væri landið ekki til sölu. Auðvitað eigum við að kaupa á lágu verði. Ef ég fæ landið á Íslandi mun ég stækka starfsemi mína til annarra landa á Norðurlöndum,“ sagði Huang.

Huang er stjórnarformaður fjárfestingarfélagsins Zhungkun sem sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum og ferðaþjónustu. Hann hyggst reisa lúxushótel og gera golfvöll á Grímsstöðum á Fjöllum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert