Emmy-verðlaun ekki til Íslendinga

Larry King fékk sérstök heiðursverðlaun Emmy.
Larry King fékk sérstök heiðursverðlaun Emmy. Reuters

Íslendingar voru tilnefndir til tvennra Emmy-verðlauna fyrir sjónvarpsfréttir, sem afhent voru í nótt en verðlaunin fóru annað.

Annars vegar var fréttastofa RÚV tilnefnd til alþjóðlegra Emmy-verðlauna fyrir fréttaflutning  sinn af eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010. Verðlaunin fóru hins vegar til  brasilísku stöðvarinnar TV Globo’s Jornal Nacional fyrir umfjöllun sína um baráttu öryggissveita við fíkniefnasala í borginni Rio.  

Verðlaun fyrir bandaríska frétta- og heimildarþætti voru einnig afhent í nótt og þar voru kvikmyndagerðamennirnir Jóhann Sigfússon og Gunnar Konráðsson tilnefndir fyrir kvikmyndatöku í  heimildarmyndinni Iceland Volcano Eruption, sem framleidd var af íslenska framleiðslufyrirtækinu ProFilm fyrir sjónvarpsstöðina National Geographic. Sú sjónvarpsstöð fékk raunar verðlaunin í þessum flokki en þau voru veitt fyrir mynd um múmíur í Nýju-Gíenu.

Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Larry King hlaut sérstök heiðursverðlaun þegar verðlaun fyrir sjónvarpsfréttir og heimildarmyndir voru afhent í New York í nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert