Ákveðið hefur verið að flýta setningu Alþingis á laugardag frá því sem vani hefur verið. Setningin hefur að jafnaði farið fram klukkan hálftvö að degi til en nú hefur þingið tekið þá ákvörðun að færa setninguna til klukkan 10:30 um morgun laugardags.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir þetta ekki vera gert af ótta við mótmæli heldur eigi að gefa þingmönnum og starfsmönnum færi á að komast fyrr inn í helgina. „Auðvitað höfum við áhyggjur af því að ekki verði farið með friði og ég veit að þingforseti hefur af því miklar áhyggjur, enda var það mikið slys hvernig þetta fór í fyrra.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að sá vani hafi verið á setningu þingsins að lögreglan standi heiðursvörð við setninguna. Nú verður hins vegar enginn heiðursvörður við setningarathöfnina. „Lögreglan lítur svo á að hún þurfi fyrst og fremst að sinna öryggisgæslu.“