Landssamband lögreglumanna (LL) kallar eftir aðkomu ríkisvaldsins til að vinna að lausn kjaradeilu LL og fjármálaráðherra. Í ályktun sem LL sendi frá sér í kjölfar langvinns fundar sem haldinn var í dag, er sagt nauðsynlegt að ríkið komi strax að málum.
Stjórnir og formenn svæðisdeilda Landssambands lögreglumanna lýsa í ályktuninni yfir megnri óánægju og reiði með niðurstöðu gerðardóms sem þeir segja að þvinguð hafi verið fram í kjaradeilu LL við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sl. föstudag gegn mótatkvæði fulltrúa LL.
Þá segir í ályktuninni:
„Það er ljóst að niðurstaða gerðardóms leiðréttir ekki þann mun sem er á grunnlaunum lögreglumanna og þeirra viðmiðunarstétta sem lagt var upp með þegar verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum frá Alþingi Íslendinga.
Óánægja innan raða lögreglumanna með þessa niðurstöðu hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni. Lögreglumenn sætta sig ekki við niðurstöðuna.
Fundurinn bendir á að enn eru til lausnir á þeim vanda sem upp er kominn og lýsir LL sig reiðubúið til að koma að úrlausn jafnt að nóttu sem degi. Augljóst er að slík vinna kallar á aðkomu ríkisvaldsins og nauðsynlegt að hún hefjist strax!“