Stjórn Landssambands lögreglumanna situr enn á fundi með fulltrúum lögreglufélaga um allt land og óháðum lögmönnum þar sem fjallað er um stöðu mála í kjölfar niðurstöðu gerðardóms um kjör lögreglumanna. Má gera ráð fyrir að fundurinn standi fram á kvöld að sögn Steinars Adolfssonar, framkvæmdastjóra Landssambandsins en fundurinn hófst klukkan þrettán í dag.
Lögreglumenn á Selfossi tilkynntu um hádegið í dag að þeir hefðu ákveðið að segja sig úr mannfjöldastjórnunarhópi embættisins. Sé það gert vegna kjaralegrar stöðu og niðurstöðu gerðardóms.
Áður höfðu lögreglumenn á Suðurnesjum, í Eyjafirði, á Akranesi og í Borgarnesi sagt sig úr óeirðasveit lögreglunnar í mótmælaskyni við niðurstöður gerðardóms um launakjör lögreglumanna.