Embætti ríkislögreglustjóra segir að vandséð sé að samkeppnismarkaður sé til staðar fyrir þær tegundir af kylfum sem lögreglan hafi heimild til að nota. Því sé ólíklegt að útboð hefði leitt til betri niðurstöðu en þeirrar sem fékkst þegar búnaður fyrir lögreglumenn var keyptur á árunum 2008-2011.
Þá segir ríkislögreglustjóri að lögum samkvæmt sé stofnunum ríkisins ekki óheimilt að eiga viðskipti við fyrirtæki í eigu lögreglumanna eða tengdra aðila.
Ríkisendurskoðun benti á það í dag að löggæslustofnanir hefðu keypt vörur af fjórum fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða náinna venslamanna þeirra fyrir samtals rúmlega 91 milljón króna á fyrrgreindu tímabili.
Stofnunin sagði að í nær öllum tilvikum hefði verið um að ræða búnað vegna löggæslustarfa. Telur Ríkisendurskoðun að hluti þessara viðskipta hafi brotið í bága við lög um opinber innkaup. Samkvæmt þeim lögum ber að bjóða út öll kaup á vörum ef fjárhæðir viðskipta fara yfir tiltekin viðmiðunarmörk sem eru nú 6,2 milljónir króna. Ef fjárhæðir eru undir þessum mörkum ber að leita tilboða hjá sem flestum fyrirtækjum áður en kaup eru ákveðin.
Á vef ríkislögreglustjóra segir m.a. að embættið hafi með umburðarbréfi árið 2007 veitt heimild til notkunar á ákveðnum tegundum lögreglukylfa. „Vandséð er að samkeppnismarkaður sé til staðar fyrir þær tegundir af kylfum sem lögreglan hefur heimild til að nota. Því er ólíklegt að útboð hefði leitt til betri niðurstöðu," segir á vefnum.
Tilkynning ríkislögreglustjóra