Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), er ósáttur við gagnrýni Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) á viðhorfskönnun sem SFF lét vinna um tryggingarsvik hér á landi nýverið, en þar kom fram að 14% aðspurða þekktu einhvern sem hafði fengið tryggingarbætur sem hann átti ekki rétt á síðustu 12 mánuðina. FÍB sagði SFF enn eina ferðina lögð í herferð til að saka stóran hluta þjóðarinnar um tryggingasvik. Kemur þetta fram í úttekt sem FÍB vann um könnun SFF.
„Þeir eru mjög stóryrtir. Að fara fram með svona orðalagi er tæplega í þeim anda sem FÍB vill vinna eftir. Við hjá Samtökum fjármálafyrirtækja höfum lagt okkur í líma við að vinna þetta allt saman faglega og rétt. Það ættu að vera sameiginlegir hagsmunir FÍB og SFF að sporna við vátryggingarsvikum," segir Guðjón.
„Þetta er þriðja árið í röð sem við gerum svona skoðanakönnun. Við vorum líka með ráðstefnu um miðjan september með fjórum erlendum sérfræðingum, ásamt forsvarsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins og lögreglunnar. Þar kom það mjög afdráttarlaust fram að þetta væri vandamál í Noregi og í þeim ríkjum sem þeir þekktu til í. Framkvæmdastjóra FÍB var boðið á ráðstefnuna en hann sá sér ekki fært að mæta."
SFF hefur ekki nákvæmar tölur um vátryggingarsvik hér á landi en miðað við reynslu annarra ríkja má ætla að þær nemi um 10%. FÍB gagnrýnir þennan útreikning og niðurstöður viðhorfskönnunarinnar. Guðjón segir þessar niðurstöður hljóta að vera áhugaverðar og það sé bara útúrsnúningur hjá FÍB að gera lítið úr þeim. „Vátryggingarsvik, eins og önnur svik, eru vandamál sem bitnar verst á þeim sem síst skyldi. Þessum langstærsta meirihluta sem ekki hagar sér svona. Því vilja menn ná árangri í því að sporna við slíkri hegðun og við erum að feta okkur áfram í að finna leiðir til að draga úr þessum vágesti."