Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, Adolf Guðmundsson, segir að ef aflétt yrði óvissunni um sjávarútveginn myndu fljótlega skapast hundruð starfa í mörgum atvinnugreinum.
En fyrirtækin haldi að sér höndum enda muni fyrirhugaðar breytingar á kvótalögum valda fjöldagjaldþrotum, verði þær að veruleika.
„Landsbankinn metur það svo að það sé uppsöfnuð fjárfestingarþörf upp á 16 milljarða í útgerðinni, ég held að hún sé mun meiri,“ sagði Adolf á ráðstefnu um atvinnumál í gær. „Ég get tekið dæmi. Allur ísfiskflotinn er kominn yfir 30 ár, hann er orðinn úreltur. Það þarf að endurnýja þorra fiskiskipaflotans. Þegar mest var vorum við með um 65 skip, erum nú með um 25 hefðbundin ísfiskskip og þau þarf öll að endurnýja. Við erum þá að tala um 1,8-2,2 milljarða í hefðbundnu ísfiskskipi.“
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði ríkisstjórnina hvorki sýna vilja né getu til að efla atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi og ekki væri hægt að treysta orðum ráðamanna.