Flokkarnir hafa enn ekki náð samkomulagi um skipan í þingnefndir. Samkvæmt nýjum þingsköpum á stjórnarandstaðan rétt á formennsku í þingnefndum, en stjórnarliðar setja það sem skilyrði fyrir samkomulagi að þeir haldi formennsku í fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd.
Ný þingskaparlög taka gildi 1. október þegar nýtt þing kemur saman. Á fyrsta fundi verður kosið í þingnefndir og þurfa því flokkarnir að hafa náð samkomulagi um skipan í þingnefndir fyrir fundinn. Samkvæmt nýju lögunum verður nefndum fækkað úr tólf í átta. Jafnframt er gert ráð fyrir aðstjórnarandstaðan geti fengið formennsku í nefndum. Formennska fer eftir þingstyrk sem þýðir að Samfylkingin fær þrjá formenn, VG tvo, Sjálfstæðisflokkur tvo og Framsóknarflokkur einn. Gert er ráð fyrir að hver nefnd verði með tvo varaformenn sem skiptist einnig milli flokka eftir þingstyrk.
Í þingskaparlögunum segir að við skipan í nefndir skuli fara eftir svokallaðri d´Hondt-reglu. Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á að ef fara ætti eftir þessari reglu ætti Samfylkingin fyrst að fá að velja sér formennsku í nefnd og síðan komi að Sjálfstæðisflokknum að velja því hann sé næststærsti flokkurinn.
Ef fara ætti eftir þessari reglu eru líkur á að Samfylkingin fengið formennsku í fjárlaganefnd og að sjálfstæðismenn myndu þá vilja formennsku í utanríkismálanefnd, sem almennt er talin næstmikilvægasta nefndin. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar lagt áhersla á að þeir haldi formennsku í bæði fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd.
Formenn þingflokkanna hafa rætt þessi mál á hverjum degi að undanförnu, en samkomulag liggur ekki fyrir. Á síðasta fundi lagði Samfylkingin fram tillögu um skiptingu á formennsku í nefndum á milli flokkanna sem stjórnarflokkarnir vonast eftir að sátt náist um. Stjórnarandstaðan hefur ekki samþykkt þessa tillögu, en málið er áfram til umræðu.