Aðkoma ráðuneytis að kaupunum óljós

Í nær öllum tilvikum var um að ræða búnað vegna …
Í nær öllum tilvikum var um að ræða búnað vegna löggæslustarfa. Morgunblaðið/Júlíus

„Við erum að fara yfir öll þau samskipti, þannig að það á allt eftir að koma betur í ljós,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um aðkomu ráðuneytisins að innkaupum ríkislögreglustjóra sem ríkisendurskoðun segir að lögbrot. Hann segir þjóðfélagið eiga rétt á öllum upplýsingum um málið.

Ögmundur sem staddur er í Mexíkó segir að ráðuneytið taki aðfinnslur og ábendingar ríkisendurskoðunar alvarlega í þeim skilningi að margvíslegrar skoðunar er þörf af hálfu þess. „Samhliða höfum við óskað eftir skýrslu frá ríkislögreglustjóra um þær aðfinnslur sem snúa sérstaklega að hans embætti. Og þegar það liggur fyrir munum við stíga næstu skref í ljósi þess sem þarna kemur fram og hvort við þurfum að breyta regluverki eða vinnuferlum.“

Ríkisendurskoðun telur að ríkislögreglustjóri hafi brotið lög um opinber innkaup þegar keyptar voru vörur af fjórum fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða náinna venslamanna þeirra fyrir samtals rúmlega 91 milljón króna á tímabilinu janúar 2008 til apríl 2011. Taldi ríkisendurskoðun að frekar hefði átt að leita tilboða.

Ríkislögreglustjóri hefur í fjölmiðlum varið ákvarðanir embættis síns, m.a. með þeim aðstæðum sem uppi voru í þjóðfélaginu. auk þess sem öll kaup hafi verið gerð með samþykki þáverandi ráðherra dómsmála. Ögmundur segist hvorki vísa vörn ríkislögreglustjóra á bug né segir hann þær rangar. „Ég vil heyra röksemdir þær sem ríkislögreglustjóri segir vera að baki ákvörðunum embættisins til þess að við getum brugðist við þeim aðfinnslum sem komið hafa fram hjá ríkisendurskoðun. Það eru eðlileg, fagleg og málefnaleg vinnubrögð.“

Ögmundur tekur fram að ríkisendurskoðun sé ekki endanlegur dómstóll í málinu. Aðspurður um það hvort það sé þá ráðherrans að skera úr um hvort lögbrot hafi verið framin segir hann svo ekki vera. „Það á þjóðfélagið. Það á rétt á því að fá upplýsingar um málið og fá alla málavöxtu fram í dagsljósið og á þessu stigi er það mitt hlutverk sem ráðherra að sjá til að svo verði. En ég vara við að menn annars vegar alhæfi um þessi mál og hins vegar kveði upp stóradóma fyrr en allar staðreyndir liggja fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert