Alls staðar deilur um aðildarumsókn

Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar.
Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar. GVA

Það hefur engin þjóð verið einhuga um að ganga í Evrópusambandið. Skiptar skoðanir um málið eru því ekki rök fyrir því að Ísland megi ekki sækja um aðild. Þetta sagði Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar, á fundi í Háskóla Íslands um ESB.

Valgerður nefndi sem dæmi að sá sem hafði forystu í viðræðum við ESB um landbúnaðarmál fyrir hönd Finna hafi verið í hópi þeirra sem voru á móti aðild. Hún sagði það því ekki nýtt að það væru skiptar skoðanir meðal þjóða sem sækja um aðild að ESB. Það kæmi því stjórnmálamönnum í Evrópu ekki neitt á óvart að það væru deilur um málið á Íslandi.

Valgerður sagði að andstæðingar aðildar Íslands að ESB gerðu mikið úr því að málið væri í ógöngum. Þetta væri ekki rétt. Samningaviðræður gengu vel og samninganefnd Íslands hefði alls staðar fengið hrós fyrir vandaðan undirbúning. Eina sem hefði komið upp á væru tafir á viðræðum um landbúnaðarmál, en það hefði ekki áhrif á viðræður um önnur mál. Evrópusambandið hefði samþykkt kröfu Íslands um að ekki yrðu gerðar breytingar á stofnunum hér á landi fyrr en ljóst væri hvort aðildarsamningur yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. ESB óskaði hins vegar eftir áætlun frá Íslandi um hvernig haldið yrði á málum ef samningurinn yrði samþykktur. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði lýst því yfir í þinginu að vinna við slíka áætlun yrði hafin.

Valgerður sagði að andstæðingar aðildar gerðu mikið úr því að aðildarumsóknin þvældist inn í öll mál og tefði fyrir afgreiðslu mála. Hún sagði að samningaviðræður væru í höndum samninganefndarinnar og framkvæmdavaldsins. Þessi mál þyrftu ekki að þvælast fyrir á Alþingi. Andstæðingar aðildar hefðu hins vegar kosið að þvæla þessu málum inn í mörg mál. Það væri þeirra val að gera það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert