Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði alþjóðlega ráðstefnu um vegamál í Mexíkóborg í gær.
Vegagerðin er þar meðal þátttakenda og tók Ögmundur þátt í umræðufundi 30 samgönguráðherra víðs vegar frá, þar sem fjallað var um fjármögnun vegaframkvæmda, öryggismál og ábyrga þróun vegakerfa með tilliti til umhverfisáhrifa, samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu.
Í ávarpi sínu sagði Ögmundur að val um fjármögnunarleið vegaframkvæmda ætti ekki að vera spurning um hvað einkaframtakið vildi eða Alþjóðabankinn heldur íbúarnir og sagði það reynslu Íslendinga að einkaframkvæmdaleið væri dýrari leið en opinber fjármögnun.
Var Ögmundur þar að bregðast við því sem fram kom hjá nokkrum starfsbræðrum hans á fundinum, þ.e. að með efnahagshruninu hefðu mörg ríki leitað annarra leiða en opinberrar fjármögnunar á samgönguframkvæmdum.