Læknaráð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) segir, að velferðarráðuneytið krefjist þess að stofnunin skeri niður útgjöld á næsta starfsári sem nemur 70 milljónum króna á ársgrundvelli og sé þá tillit til frestunar á sparnaðaraðgerðum sem gera átti 2010.
„Vert er að benda á að umtalsverður sparnaður hefur þegar hlotist af hagræðingu verkferla og endurskoðun á starfsemi HSu," segir í ályktun læknaráðsins, sem hægt er að lesa í heild á vef stofnunarinnar.
„Hins vegar eru komin fram alvarleg áhrif af niðurskurði svo sem brotthvarf sérfræðilækna frá stofnuninni og skortur á læknum til starfa. Þannig eru ómönnuð nokkur stöðugildi heilsugæslulækna og staða lyflæknis aðeins mönnuð tímabundið í stað fast og engin viðbrögð eru við auglýsingum um lausar stöður. Eftir stendur fámennari hópur lækna sem finnur fyrir vaxandi álagi og má ekkert út af bregða til að fleiri hverfi úr starfi."