„Þessi vísitala ætti í raun og veru ekki að vera mælikvarði á höfuðstólshækkanir lána. Ef að vilji löggjafans er að tryggja lánin fyrir rýrnun gjaldmiðils er þetta ekki rétta vísitalan til að miða við, þá ætti í raun að nota vísitölu nafnverðs sem mælir nafnbreytingar vöruverðs,“ segir Andrea J. Ólafsdóttir, formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,63% í september og hefur vísitalan þá hækkað um 5,7% síðustu 12 mánuði og um 1% síðustu þrjá mánuði sem jafngildir 4,1% verðbólgu á ári. Er þetta mesta 12 mánaða verðbólga sem mælst hefur frá því í júní árið 2010, segir í nýjum tölum frá Hagstofunni.
„Framkvæmd verðtryggingarinnar, að bæta alltaf við viðbótarláninu með því að greiða ekki verðbætur mánaðalega heldur lána þær áfram, gerir það að verkum að bankar og fjármálastofnanir skrifa eigur sínar hærri inn í bækur sínar. Að okkar mati gerir þetta að verkum, að peningamagn í umferð eykst, því lánamöguleikar þeirra aukast. Þeir geta lánað meira peningamagn með því að skrifa þetta í bækur sínar, þannig eykst peningamagn í umferð og það veldur verðbólgu,“ segir Andrea og bætir við að verðtryggingin eins og hún er í dag sé verðbólguhvetjandi en ætti ekki að vera það ef að rétt væri með farið. Væru verðbætur staðgreiddar þá héldist verðbólgan niðri.
„Það þarf að koma í veg fyrir þessa framkvæmd verðtryggðra lán og það þarf að gerast strax. Í framhaldinu þarf síðan að afnema verðtryggingu á neytendalánum,“ segir Andrea.
Hún segir, að rúmlega 30 þúsund manns hafi nú skrifað undir kröfuna um afnám verðtryggingar heimasíðu samtakanna. „Í gegnum tíðina hafa mörg frumvörp verið lögð fram á Alþingi þess efnis, en þau hafa ekki fengið afgreiðslu úr nefndum, ekki fengið umræðu þings, né atkvæðagreiðslu. Nú er tími til kominn."