Vilja sameiningu á Suðurnesjum

Framsóknarfélag Reykjanesbæjar telur hagsmunum íbúa best borgið í sameinuðu sveitarfélagi.
Framsóknarfélag Reykjanesbæjar telur hagsmunum íbúa best borgið í sameinuðu sveitarfélagi. hag / Haraldur Guðjónsson

Félagsfundur í Framsóknarfélagi Reykjanesbæjar, sem haldinn var 24. september síðastliðinn, ályktaði að það væri samfélaginu, íbúum og fyrirtækjum á Suðurnesjum til hagsbóta ef bæjarfélögin fimm á svæðinu yrðu sameinuð í eitt sveitarfélag.

„Hagsmunum íbúa á Suðurnesjum er best borgið með einu öflugu sveitarfélagi. Rekstur sameinaðs sveitarfélags verður skilvirkari en þeirra fimm sem starfa í dag,“ segir í tilkynningu frá Framsóknarfélaginu.

Var lagt til að sett verði á laggirnar starfsnefnd innan Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem muni ræða og leggja fram tillögur um það hvernig best verði staðið að sameiningu.

„Markmið sveitarfélaga er að skapa sterkt samfélag, auka velferð og þjónustu íbúa samfara því að skila góðum árangri í rekstri. Með sameiningu allra sveitarfélaga á Suðurnesjum telja Framsóknarmenn í Reykjanesbæ að þessi markmið náist.“


                                            

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert