SA vísa orðum forsætisráðherra á bug

Samtök atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins vísa orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og gagnrýni frá því í gær á bug. Samtökin segja það misskilning ef forsætisráðherra haldi að SA vilji ríkisstjórninni eitthvað annað en allt hið besta. Þvert á móti hafi verið reynt að styðja stjórnina til góðra verka með ráðum og dáð.

„Það er ógæfa ríkisstjórnarinnar að hún virðist hvorki geta né vilja fara að góðum ráðum jafnvel þótt hún hafi sjálf ákveðið að þiggja þau,“ segir í athugasemd sem birt er á vefsvæði samtakanna. 

Meðal annars er vísað í orð forsætisráðherra sem birtust í Morgunblaðinu og eru á þá leið að samtökin hafi gengið í lið með stjórnarandstöðunni og séu að reyna að koma ríkisstjórn sinni frá völdum. Einnig er vísað í orð ráðherrans um að samtökin eigi að líta í eigin barm áður en þau gagnrýni ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi. Ríkið hafi gert mun meira en atvinnulífið til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

„SA vinna að því að skapa fyrirtækjum landsins sem best starfsskilyrði. Frá haustinu 2008 hafa allar tillögur SA miðast við að koma atvinnulífinu af stað, efla hagvöxt og auka framkvæmdir í landinu,“ segir í athugasemd SA og þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisvaldsins sé allt í hægagangi á Íslandi. „Áætlunin sem átti að liggja fyrir í maí um hagvöxt og fjárfestingar er enn ekki komin fram. Stórar fjárfestingar í orku- og iðnaðarverkefnum dragast. Litlar sem engar fjárfestingar eru í sjávarútvegi vegna þeirrar óvissu sem stjórnmálamenn hafa skapað og það hefur áhrif í öðrum atvinnugreinum, ekki síst á landsbyggðinni.“

Þá segir að allir þeir sem fylgst hafi með samskiptum Samtaka atvinnulífsins við ríkisstjórnina viti að samtökin hafa flutt ítarlegar tillögur um hvernig skapa megi þannig aðstæður að störfum fjölgi, skatttekjur aukist og lífskjör batni. Það er atvinnulífið sem skapar störfin en stjórnvöld ákveða rammann sem fyrirtækin starfa innan. „Því miður hefur ríkisstjórnin ekki borið gæfu til að fylgja eftir eigin yfirlýsingum og hollráðum Samtaka atvinnulífsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka