ÍAV sagði upp 40 manns fyrir þessi mánaðamót, en þetta er þriðja stóra hópuppsögnin hjá fyrirtækinu frá hruni. Dagmar Viðarsdóttir, mannauðsstjóri hjá ÍAV, segir að margir sem fengu uppsagnarbréf í dag hafi starfað hjá fyrirtækinu í áratugi.
Um 200 manns störfuðu hjá ÍAV fyrir þessar uppsagnir, en þegar flestir störfuðu hjá fyrirtækinu, um mitt ár 2008, var ÍVA með um 620 manns í vinnu. Í janúar á þessu ári sagði ÍAV upp um 130 manns.
Dagmar sagði að ástæða uppsagnanna væri verkefnaskortur. Það væri ekkert í pípunum sem gæfi fyrirtækinu tilefni til að gefa þeim sem sagt var upp í dag fyrirheit um endurráðningu. ÍAV væri sérhæft fyrirtæki í byggingariðnaði og verkefnisstaðan væri mjög háð því hvaða ákvarðanir ríkisvaldið tekur um fjárfestingar.
„Margt af því starfsfólki sem fékk uppsagnabréf núna hefur starfað hjá okkur í áratugi og er mjög hæft starfsfólk. Sumir hafa starfað hjá okkur allan sinn starfsaldur. Það ríkir því mikil sorg hjá okkur í dag vegna þessara uppsagna,“ segir Dagmar.