Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður segir í viðtali við tímaritið Mojo að hún hafi óttast um tíma að hún myndi missa röddina eftir að hnúðar mynduðust á raddböndunum á henni árið 2008.
Björk segir í viðtalinu að hún hafi ekki viljað gangast undir aðgerð til að fjarlægja hnúðana. Hún hafi óttast að hún myndi skaða söngrödd sína en tekist að varðveita hana með sérstökum teygjuæfingum á undanförnum þremur árum.
„Þegar ég komst að því að ég væri með hnúða á raddböndunum vissi ég ekki hvort ég gæti sungið aftur, eða að minnsta kosti ekki eins og ég er vön. Ég vildi ekki gangast undir aðgerð svo ég fór til sérfræðinga og hóf þetta ferli, æfingar sem teygja hægt og hægt á raddböndunum," segir Björk við Mojo.