Halda á samstöðutónleika á Austurvelli á laugardag á sama tíma og nýtt þing er sett. Segir í tilkynningu frá aðstandendum tónleikanna, að þeir séu hugsaðir sem stefnumót við stjórnvöld fyrir fólkið í landinu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og yfirgangs bankanna.
Tónleikarnir hefjast klukkan 10 og eiga að standa til klukkan 15. Andrea Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, flytja ávörp og meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru Fjallabræður ásamt Magnúsi Þór Sigmundsyni og Jónasi Sigurðssyni, Gunnar Þórðarson, KK, Bjartmar Guðlaugsson, Gylfi Ægisson, Megas, Rúnar Þór Pétursson og Jussanam da Silva.
Allir listamenn gefa vinnu sína. Tekið er fram að íslensk skuldakjötsúpa verði í boði á meðan birgðir endast.
Þá er boðað til tunnumótmæla á Austurvelli á mánudagskvöld klukkan 19 þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína.