Bændasamtökin segja að á síðustu árum hafi innlendar búvörur hækkað minna í verði en aðrar neysluvörur. Því sé ekki við bændur að sakast þegar skýringa sé leitað á verðhækkunum á matvörum.
Í tilkynningu frá Bændasamtökunum er málflutningi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambandsins, mótmælt harðlega en Gylfi sagðist í viðtali við RÚV í gær telja að skýringa á aukinni verðbólgu væri að leita í verðhækkunum á íslenskum búvörum undanfarna mánuði og að bændur væru að taka meira til sín í skjóli einokunar.
Segir m.a. í tilkynningu Bændasamtakanna að frá ársbyrjun 2007 hafi innfluttur matur hækkað um 60,2% en íslensk búvara aðeins um 32%. Almennt verðlag í landinu hafi hækkað um 43% frá ársbyrjun 2007.
Þá segir að til að finna skýringar á hækkuðu búvöruverði megi minna á, að í nýgerðum kjarasamningum hafi laun þeirra tekjulægstu lækkað mest. Stór hluti starfsmanna afurðastöðva sé því miður í þeim hópi og því snerti launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum ASÍ þessi fyrirtæki óneitanlega.
„Spurning er hvar fyrirtækin áttu að taka þá hækkun annars staðar en að velta þeim út í verðlagið?" spyrja Bændasamtökin.