Ekki hægt að byggja á frumvarpinu

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd alþingis segja í greinargerð sinni vegna frumvarps til laga um heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum að frumvarpið geti ekki orðið grundvöllur breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Vilja þingmennirnir, þeir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson, byggja á niðurstöðu endurskoðunarnefndar um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Þeir Einar og Jón segjast m.a. telja að setja eigi ákvæði í stjórnarskrá, þar sem  þær náttúruauðlindir sem nú eru taldar í þjóðareign, þ.m.t. fiskistofnar í íslenskri lögsögu verði lýstar þjóðareign, eftir því  sem nánar er kveðið á um í lögum.

Veita megi einstaklingum og lögaðilum heimild til afnota á þessum náttúruauðlindum, gegn gjaldi sem renni í ríkissjóð. Slík afnotaheimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Þá verði gerðir nýtingarsamningar við núverandi fiskveiðiréttarhafa. Samningstími taki mið af öðrum nýtingarréttarsamningum, sem til dæmis verða gerðir við þá er nýta orku í eigu ríkisins. Tryggt verði að tímalengdin stuðli að langtímahugsun og arðbærri fjárfestingu í sjávarútvegi, en dragi ekki úr henni eins og tillögur frumvarpsins gera svo ómótmælanlegt er. Í samningunum verði að finna skýr endurnýjunarákvæði. Fyrir afnotaréttinn komi gjald er renni til ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert