Heildarfarþegafjöldi með Iceland Express hefur aukist um 25,6% fyrstu átta mánuði ársins og flytur félagið nú 19% erlendra farþega til landsins. Þá setti félagið met í stundvísi dagana 20. til 26. september, en þá fóru 96,7 prósent flugvéla félagsins á áætluðum tíma frá Keflavík en það eru flugvélar sem fara á innan við 15 mínútum frá auglýstum tíma. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Iceland Express.
Segir þar ennfremur að á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafi 77.100 erlendir ferðamenn komið til Íslands með Iceland Express, eða um 19 prósent þeirra 406 þúsund útlendinga sem komu til landsins með flugi á þessu tímabili samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu.
Hefur mikil fjölgun átt sér stað á farþegum sem millilenda frá því í fyrra en það eru þeir farþegar sem fara um Leifsstöð á vegum félagsins en stoppa ekki að öðru leyti á Íslandi. Fyrstu átta mánuði þessa árs voru þeir 49.356, eða um 180 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra þegar þeir voru 17.646. Skýringin er sögð liggja að mestum hluta í fjölgun áfangastaða í Norður-Ameríku milli ára.