Fimm starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur var sagt upp störfum í dag. Uppsagnirnar eru í tengslum við skipulagsbreytingar sem kynntar verða á morgun.
„Við höfum verið að endurskipuleggja rekstur Orkuveitunnar eins og menn þekkja. Við erum búin að vinna tillögu að nýju skipuriti sem við ætlum að kynna á morgun. Það miðar að því að einfalda og skýra ábyrgð. Því er ætlað að leggja áherslu á þjónustuhlutverk Orkuveitunnar og styðja við frekari hagræðingu. Í tengslum við þetta leggjum við niður átta störf og það leiðir til fimm uppsagna, en þrjú leysum við með öðrum leiðum, eins og með því að flýta starfslokum,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar.
Bjarni sagði að starfmennirnir sem missa vinnuna nú væru úr ýmsum deildum fyrirtækisins.
Bjarni sagði að í mars á þessu ári hefði Orkuveitan lýst því yfir að Orkuveitan stefndi að því að fækka starfsmönnum fyrirtækisins á næstu árum um 90. Þetta myndi fyrst og fremst gerast þannig að ekki yrði ráðið í stöður þeirra sem hætta.
Fyrir tæpu einu ári sagði Orkuveitan upp 65 manns vegna hagræðingar hjá fyrirtækinu. Jafnframt var tilkynnt um hækkun á gjaldskrá og að eignir yrðu seldar.