Lögreglumenn áforma, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að efna til kröfugöngu í Reykjavík í dag, með þátttöku lögreglumanna víðs vegar af landinu, til að mótmæla niðurstöðu gerðardóms. Til stendur að ganga frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu og að fjármálaráðuneytinu.
Ætla lögreglumenn þannig að vekja athygli á kröfum sínum um sams konar kjarabætur og viðmiðunarstéttir þeirra hafa fengið. Þorri liðsmanna aðgerðasveita lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hyggst yfirgefa þær en megn óánægja ríkir meðal lögreglumanna vegna niðurstöðu gerðardóms.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að aðgerðasveitirnar leggja til óeirðalögreglumenn þegar yfirmenn löggæslunnar telja þörf á slíkum viðbrögðum. Óljóst er hvað mun gerast á laugardag ef lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, álítur þörf á að hafa óeirðalögreglumenn á staðnum þegar þing verður sett. Stefán segist í samtali við blaðið hafa fulla samúð með kröfum lögreglumanna og hann skilji ekki afstöðu stjórnvalda í málinu.
Grunnlaun lögreglumanna hafa dregist aftur úr ef mið er tekið af launaþróun viðmiðunarstétta. Gerðardómurinn tekur undir þetta í niðurstöðu sinni en leiðréttir ekki muninn. Lögreglumenn ræða nú hvort bæta megi kjörin með launasamningum innan embættanna, þ.e. stofnanasamningum.