Hæstiréttur hefur sýknað 24 ára gamlan karlmann, Óðin Frey Valgeirsson, af ákæru fyrir árás á 16 ára gamla stúlku í Laugardal í Reykjavík síðasta haust. Fjölskipaður héraðsdómur dæmdi manninn í 3 ára fangelsi fyrr á árinu.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ráðist með ofbeldi á stúlkuna þar sem hún var á gangi á göngustíg í Laugardal í október 2010, slá hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og taka hana hálstaki og þrengja að þar til hún missti meðvitund. Stúlkan fékk margvíslega áverka.
Maðurinn var handtekinn mánuði síðar og játaði fyrst árásina en dró játninguna síðan til baka og sagðist hafa verið búinn að nota mikið af áfengi, amfetamíni og rítalíni og því ekki verið með réttu ráði þegar hann var yfirheyrður í fyrra sinnið.
Meirihluti fjölskipaðs héraðsdóms mat það svo að ekki væri véfengt með skynsamlegum rökum að maðurinn væri sekur. Einn dómari skilaði hins vegar séráliti og vildi sýkna manninn þar sem hann taldi verulegan vafa leika á því að játning mannsins í lögregluyfirheyrslu 11. nóvember hefði verið rétt.
Hæstiréttur segir í dómi sínum í dag að ágallar á skýrslutökum lögreglu af systur mannsins séu þess eðlis að ekki yrði litið til skýrslnanna við úrlausn málsins. Systirin hafi hvorki verið upplýst með fullnægjandi hætti um réttarstöðu sína sem vitnis né um það hverjir myndu fá aðgang að upptökum af skýrslutökunum.
Einnig var fundið að því að ekki hefði farið fram rannsókn á erfðaefni á blóðsýnum sem tekin voru á vettvangi árásarinnar, myndir af áverkum stúlkunnar hefðu ekki verið í gögnum málsins og að skort hefði greinargóðar lýsingar á hæð og útliti mannsins og stúlkunnar.
Skýrsla mannsins hjá lögreglu þótti hafa verið óljós og ruglingsleg og ekki nema að hluta í samræmi við annað sem fyrir lá í málinu. Því taldi Hæstiréttur að ekki væri hægt að reisa sakfellingu á henni einni.
Þá segir Hæstiréttur að þótt framburður vitna kynni að styðja að maðurinn hefði ráðist að stúlkunni nægði sá framburður einn og sér ekki til sakfellis gegn eindreginni neitun mannsins fyrir dómi. Einnig yrði að líta til þess að við rannsókn á vettvangi og fatnaði mannsins hefði ekkert komið fram um að hann hefði framið það brot sem hann var ákærður fyrir.
Óðinn Freyr sat í gæsluvarðhaldi frá því í nóvember á síðasta ári þar til í byrjun júlí á þessu ári en þá hafnaði Hæstiréttur kröfu ríkissaksóknara um að framlengja gæsluvarðhaldið.
Héraðsdómur hafði þá sakfellt Óðin Frey fyrir árásarákæruna og krafðist ríkissaksóknari áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna, eða þar til dómur Hæstaréttar félli.
Hæstiréttur taldi hins vegar að skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldsvist væri ekki lengur fullnægt.