Veik staða á Suðurnesjum

Fjárhagsstaða sveitarfélaganna á Suðurnesjum er mjög veik að Garði undanskyldum.
Fjárhagsstaða sveitarfélaganna á Suðurnesjum er mjög veik að Garði undanskyldum. mbl.is/hag

Fjárhagsstaða sveitarfélaganna á Suðurnesjum er mjög veik. Hvergi á landinu eru skuldir meiri og öll sveitarfélögin nema eitt voru rekin með tapi í fyrra. Sé litið á skuldir á íbúa eru þrjú af fimm skuldugustu sveitarfélögum landsins á Suðurnesjum.

Á Suðurnesjum eru fimm sveitarfélög, Reykjanesbær, Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar.  Garður skuldar sáralítið og staðan hjá Grindavík er sæmileg. Hin sveitarfélögin þrjú eru mjög skuldug. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum nema Reykjanesbær voru rekin með tapi á síðasta ári.

Þrátt fyrir að Garður standi mjög vel nema heildarskuldir sveitarfélaganna á Suðurnesjum (A-hluta) 1.761 þúsund krónum á íbúa. Skuldirnar eru 808 þúsund á íbúa á Vesturlandi, 769 þúsund á íbúa á Vestfjörðum, 619 þúsund á íbúa á Norðurlandi vestra, 776 þúsund á íbúa á Norðurlandi eystra, 1.564 þúsund á íbúa á Austurlandi, 869 þúsund á íbúa á Suðurlandi og 1.021 þúsund á íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Skuldugasta sveitarfélag landsins er Sandgerði, en það skuldar 411% af heildartekjum. Staða sveitarfélagsins hefur versnað mjög mikið milli ára en í árslok 2009 námu skuldirnar 323% af tekjum. Árið 2009 var Álftanes skuldugasta sveitarfélag landsins en það er nú komið í annað sætið með skuldir sem nema 399% af heildartekjum. Þriðja skuldugasta sveitarfélag landsins er Reykjanesbær sem skuldar 395% af heildartekjum sem er svipuð staða og árið á undan. Í fjórða sæti eru Vogar sem skulda 334% af heildartekjum (389% árið 2009). Í fimmta sæti er Fjarðabyggð sem skuldar 275% af heildartekjum (300% árið 2009).

Í nýjum sveitarstjórnarlögum er miðað við að skuldir sveitarfélaga fari ekki upp fyrir 150% af heildartekjum. Samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eru 20 sveitarfélög með skuldir umfram þetta mark þegar litið er til sveitarsjóðs (A-hluta) en 29 ef litið er líka til fyrirtækja í eigu sveitarfélaganna (A- og B- hluta).

Fjögur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skulda meira en 150% af heildartekjum, en það eru Álftanes (399%), Hafnarfjörður (243%), Kópavogsbær (201%) og Mosfellsbær (183%). Skuldir Reykjavíkur nema 79% af heildartekjum, en þegar tekið er tillit til skulda A- og B-hluta (m.a. Orkuveitunnar og Félagsbústaða) nema skuldir Reykjavíkur 329% af heildartekjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert