Ákveðið var á fundi forsvarsmanna Landssambands lögreglumanna með fjármálaráðherra í dag að stofna starfshóp með fulltrúum forsætis-, fjármála- og innanríkisráðuneytis og samninganefnd lögreglumanna.
Að sögn Steinars Adolfssonar, framkvæmdastjóra landssambandsins, er ekkert fast í hendi þessa stundina en samtalið mikilvægt. Hópurinn fundar á morgun klukkan 13.00.
Funduðu lögreglumenn í fjármálaráðuneytinu í dag með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra. Auk hans voru ráðuneytisstjórar forsætis-, innanríkis- og fjármálaráðuneytisins, aðstoðarmaður ráðherra og samninganefnd ríkisins viðstödd fundinn.
„Við óskuðum eftir þessum fundi með ráðherra í gær og það var brugðist skjótt við því. Á fundinum reifuðu þessir aðilar sín sjónarmið hreinskilnislega og deildu áhyggjum af þessari stöðu sem er uppi. Það var ákveðið að mynda vinnuhóp sem hefur störf á morgun með það að markmiði að þoka málum í réttan farveg,“ segir Steinar.
Hann segist vonast til þess að vinna starfshópsins skili einhverju en ekkert sé þó fast í hendi. Samtalið við stjórnvald hafi hins vegar verið mikilvægt og fundur hópsins á morgun skipti alla máli.