„Þetta er að mínu mati skelfilegt fyrir brothætt samfélag hér á Suðurnesjum. Við hrökkvum aftur um mörg ár,“ segir Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs sveitarfélagsins Voga.
Hann greiddi atkvæði á móti ályktun sem meirihluti bæjarfulltrúa samþykkti um að taka upp aðalskipulag með það að markmiði að setja Suðvesturlínu í jarðstreng í stað loftlínu.
Landsnet hefur í mörg ár unnið að undirbúningi þess að byggja upp raforkuflutningakerfið á Suðvesturlandi til framtíðar svo það geti mætt áformum um orkuflutning á svæðinu, jafnt til atvinnustarfsemi og almannanota. Mikilvægur liður í því er ný háspennulína sem leggja á frá höfuðborgarsvæðinu til Reykjanesbæjar með tengingu við Reykjanesvirkjun. Er það talið nauðsynlegt til að hægt sé að stækka Reykjanesvirkjun og afhenda orku til áformaðs álvers í Helguvík og annarra stórnotenda á því svæði.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að áhugi var á því í sveitarfélaginu Vogum að leggja háspennulínurnar í jörð. Á það gat Landsnet ekki fallist vegna kostnaðar sem talinn er 5-7 sinnum meiri en einnig af tæknilegum ástæðum.