Margir hafa boðað komu sína á Austurvöll í fyrramálið í gegnum Facebook-hópinn Samstaða Íslendinga 1. október. Að sögn Valþórs Ólasonar, eins skipuleggjanda hópsins, er ætlunin að fylla Austurvöll og sýna samstöðu gegn aðgerðarleysi á Alþingi.
„Við sem stöndum að þessum hóp erum algjörlega laus við pólitík og erum að þessu fyrir Íslendinga. Við viljum fá heiðarlega Íslendinga inn á þing sem vinna fyrir fólkið í landinu. Við viljum aðgerðir fyrir fólkið í landinu, sama hvaða flokkur stendur að þeim,“ segir Valþór.
Þingsetning fer nú fram klukkan 10.30. Valþór segir þá tímasetningu ekki koma í veg fyrir að fólk fjölmenni á Austurvöll.
„Við erum búin að vita af þessu í nokkurn tíma og ætlum ekki að láta þetta stöðva okkur í að mæta og mótmæla, við vöknum bara fyrr. Það hafa hátt í 3.500 einstaklingar skráð sig á Facebook-síðuna okkar en í fyrra skráðu sig ekki nema 1.900 en þá mættu hátt í 10.000 því vænti ég þess að sjá allt að 20 til 30 þúsund manns í friðsamlegum mótmælum á morgun.“
Facebook-síða hópsins Samstaða Íslendinga