Sjónvarpað og útvarpað verður beint frá setningu Alþingis á morgun og hefjast útsendingar á RÚV kl. 11. Sjálf setningarathöfnin hefst kl. 10.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Fimm mínútur yfir 11 er ætlunin að þingmenn gangi úr kirkju yfir í þinghúsið. Forseti Íslands setur þingið og forseti Alþingis flytur ávarp. Hlé verður gert á þingsetningarfundi kl. 11.35 og fundur hefst að nýju kl. 12.30 er fjárlagafrumvarpinu verður dreift og kosið í þingnefndir.
Búast má við fjölda fólks á Austurvöll á morgun en svonefndur Samstöðuhópur fyrir Íslendinga hefur boðað tónleikahald frá kl. 10-15, í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna sem ætla að afhenda forsætisráðherra 30 þúsund undirskriftir.