Fjárlagafrumvarp ársins 2012, sem lagt var fram á Alþingi í dag, gerir ráð fyrir 17,7 milljarða halla. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir þetta mildara frumvarp en síðasta frumvarp sem hann kallaði hrunfjárlög. Nú séu stigin skref í átt til uppbyggingar.
Steingrímur segir að útlit sé fyrir að hallinn á þessu ári verði 42,2 milljarðar, en fjárlögin gerðu ráð fyrir að halinn yrði 37,3 milljarðar. Hann segir því gert ráð fyrir að hallinn á næsta ári verði helmingi minni en í ár.
Samkvæmt áætlun sem ríkisstjórnin setti fram í ársbyrjun 2009 í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gert ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði á þessu ári. Hann átti að vera 15,5 milljarðar, en Steingrímur segir horfur á að hann verði 3,7 milljarðar. Frumjöfnuður er mismunur á tekjum og útgjöldum ríkissjóðs að vaxtakostnaði frátöldum. Frumjöfnuður segir því til um hvort rekstur ríkissjóðs sé þannig að enn sé verið að safna skuldum.
Steingrímur segir að þegar ríkisstjórnin tók við árið 2009 hafi neikvæður frumjöfnuður ríkissjóðs verið um 100 milljarðar. Nú sé gert ráð fyrir að hann verði jákvæður um tæplega 40 milljarða. Þessar tölur, sem hann segir að ekki verði deilt um, sýni þann árangur sem ríkissjóður hafi náð í ríkisfjármálum.
Fjárlagafrumvarpið byggir á þjóðhagsspá sem Hagstofan vann í júní, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti á næsta ári, 3,7% verðbólgu, 6% atvinnuleysi, 6,1% neikvæðum viðskiptajöfnuði og 3,2% kaupmáttaraukningu.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að 3% almennri lækkun útgjalda í stjórnsýslunni og 1,5% lækkun í velferðarmálum, þ.e. heilbrigðismálum, menntamálum, almannatryggingum og löggæslumálum.
Steingrímur sagði að á næsta ári yrðu útgjöld skorin niður um 8,6 milljarða og ný tekjuöflun myndi skilað 20,7 milljörðum. Samtals væri þetta um 30 milljarða breyting.
Þessi nýja tekjuöflun er hækkun tekjuskatts einstaklinga (1,5 milljarðar) hækkun auðlegðarskatts (1,4 milljarðar), nýr launaskattur á fjármálafyrirtæki (4,5 milljarðar), hækkun kolefnisgjalds (0,8 milljarðar), hækkun veiðigjalds (1,5 milljarðar), arðgreiðslur ríkisfyrirtækja (2 milljarðar), eignasala (7 milljarðar) og sérstök heimild til úttektar séreignarsparnaðar (2 milljarðar).