Ekki rétt að skera meira niður

Fjárlagafrumvarp ársins 2012 var lagt fram á Alþingi í dag.
Fjárlagafrumvarp ársins 2012 var lagt fram á Alþingi í dag. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur að ekki sé rétt að ganga lengra í niðurskurði en gerð er tillaga um í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Frekari niðurskurður hefði samdráttaráhrif og félagslega og pólitískt hefði verið erfitt að ganga lengra.

„Ég held að væri ekki skynsamlegt að skera meira niður,“ sagði Steingrímur. „Í fyrsta lagi hefði meiri niðurskurður samdráttaráhrif og við viljum að ríkisfjármálin styðji við batann. Í öðru lagi er brúið að skera gríðarlega niður og það er víða komið nálægt beini. Það er erfitt að ganga lengra án þess að það leiði til minni þjónustu. Við erum að reyna að stilla þessu þannig upp og einnig fyrir árin sem á eftir koma, að í raun og vera sé þetta eðlileg hagræðingarkrafa. Það er víða gert og við viljum ná um 1% sparnaði í gegnum endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri.

Ég held líka að félagslega og pólitískt hefði verið erfitt að fara af stað með mikið hærri skammt í niðurskurði. Við erum að reyna að gera þetta eins mjúklega og mögulegt er. Við erum að uppskera vegna þess að við tókum mjög stóran skammt frá miðju ári 2009 til 2011. Við fórum í mjög framhlaðna og grimma áætlun strax og því getum við núna gert þetta mildar en ella væri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert