Fá 233 milljón styrk frá ESB

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Stefáni …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Stefáni Hauki Jóhannessyni aðalsamningamanni. mbl.is/Utanríkisráðuneytið

Evrópusambandið ætlar að styrkja þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins um 233 milljónir á næstu tveimur árum. Þýðingarmiðstöðin fær 509 milljónir á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, en fékk 284 milljónir í fyrra.

Styrkurinn frá ESB til þýðingarmiðstöðvarinnar er óafturkræfur. 186 milljónir koma á næsta ári og 47 milljónir á árinu 2013. Til viðbótar við bein fjárframlög er gert ráð fyrir að Þýðingamiðstöðin njóti einnig annars konar stuðnings frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í formi þjálfunar þýðenda, tækniaðstoðar og búnaðar.

Heildarframlög til sendiráða Íslands eru áætluð 2,8 milljarðar á næsta ári og samsvarar það um 118,6 milljóna raunlækkun frá fjárlögum yfirstandi árs.

Í fjárlagafrumvarpinu er lögð til um 28 milljón króna hækkun vegna fjölgunar á útsendum fulltrúum við sendiráðið í Brussel. Fulltrúum annarra ráðuneyta við sendiráðið hefur verið fækkað um alls fimm frá árinu 2008. Sú ráðstöfun hefur orðið til þess að álag hefur aukist verulega á útsenda starfsmenn utanríkisráðuneytisins í Brussel en þeir þurfa nú að sinna stóraukinni fundasókn fyrir hin ráðuneytin, auk fjölmargra viðbótarverkefna sem snúa að rekstri EES–samningsins sem ekki er hægt að sinna sem skyldi við núverandi aðstæður. Fjárheimildin miðast við að ráðinn verði einn starfsmaður í byrjun næsta árs og annar frá miðju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert