Fleiri þjóðhöfðingjum boðið til Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is

Forsetaembættið áformar að taka á móti fleiri erlendum þjóðhöfðingjum á næsta ári en síðustu ár. Vegna sparnaðar hjá embættinu á síðustu árum hefur ekki verið hægt að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum sem boðið hefur verið til Íslands á undanförnum árum.

Gert er ráð fyrir 185,4 milljóna fjárveitingu til forsetaembættisins á næsta ári sem jafngildir að hún verði óbreytt að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs. Lögð er til 5 milljóna lækkun á fjárveitingu til almenns reksturs í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Hins vegar er sótt um 5 milljóna hækkun á fjárveitingu til opinberra heimsókna. Aðhald í rekstri undanfarin 2 ár hefur skilað embættinu tæplega 18 milljóna afgangi sem gert er ráð fyrir að það mun nýta að fullu á árinu 2011 meðal annars til að standa straum af kostnaði vegna opinberra heimsókna erlendra þjóðhöfðingja og verkefna sem frestað var á árunum 2009 og 2010. Dregið var mjög úr fjölda og umfangi slíkra heimsókna í kjölfar efnahagsáfallanna haustið 2008 en nú er talin ástæða til að auka aftur alþjóðleg samskipti embættisins og standa straum af kostnaði vegna heimsókna erlendra þjóðhöfðingja sem boðið hefur verið til Íslands á undanförnum árum en ekki hefur verið unnt að sinna fyrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert