Búið er að girða Alþingishúsið og Dómkirkjuna af með sérstakri girðingu en setningarathöfn Alþingis hefst klukkan 10:30 í dag þegar þingmenn og aðrir gestir ganga úr Alþingishúsinu í kirkju.
Þar mun séra Agnes M. Sigurðardóttir prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis, predika og séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjóna fyrir altari ásamt Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, vígslubiskupi á Hólum. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, vígslubiskup, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setir þingið og Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, flytur ávarp.
Fjárlagafrumvarpi næsta árs verður útbýtt á Alþingi eftir hádegið eftir stutt hlé, sem gert verður á þingfundinum.