Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að því verði frestað um eitt ár að ná jöfnuði á fjárlögum. Í efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram í febrúar 2009 og unnin var í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, var gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum 2013, en nú er gert ráð fyrir að því marki verði náði 2014.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra telur enga áhættu fyrir Ísland að taka þessa ákvörðun. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi í fimmtu og sjöttu endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland farið að boða þetta.
„Sjóðurinn sagði að það væri hægt og líklega skynsamlegt að aðlaga nokkuð taktinn í þessu í ljósi þess árangurs sem hefði náðst. Í sjöttu endurskoðuninni er beinlínis mælt með því að reynt verði að finna þann takt í þessu sem hlúi að vexti. Þetta er alveg í samræmi við það sem er að gerast úti í heimi. Menn segja að til lengri tíma litið verður að keyra mjög ákveðna sjálfbærnistefnu en til skamms tíma sé mikilvægt að hlúa að vexti eins og hægt er. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera.“
Gangi áætlun fjármálaráðuneytisins eftir fyrir þetta og næstu tvö ár verður samanlagður halli ríkissjóðs á árunum 2008-2013 um 540 milljarðar.