Hlýtt var um land allt í nýliðnum september, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Trausta Jónssyni veðurfræðingi. Meðalhiti í Reykjavík var 2 stigum fyrir ofan meðallag áranna 1961 til 1990 en 1,4 stigum ofan þess á Akureyri.
Mánuðurinn kvaddi með miklum hlýindum því hitinn komst hæst í 19,6 gráður á Skaftafelli í gær og 18,6 gráður í Öræfum. Þetta er trúlega met fyrir 30. september að sögn Trausta. Hins vegar eiga bæði 29. september og 1. október nokkru hærri gildi. Fyrri dagurinn á metið 22,3°C og 1. október 23,5°C.
Lengi vel var mjög þurrt á landinu vestanverðu í september en mikil rigning síðustu dagana sá til þess að heildarúrkoma mánaðarins var í ríflegu meðallagi. Norðanlands og austan var úrkoma yfirleitt yfir meðallagi, langmest þó suðaustanlands. Í Reykjavík var úrkoman í rúmu meðallagi, á Akureyri var hún hins vegar meira en 60% umfram meðallag. Mjög sólríkt var í Reykjavík og ekki hafa mælst fleiri sólskinsstundir í Reykjavík í september síðan 1994.