„Það er heiðskírt og vel viðrar til mótmæla,“ segir Valþór Ólason, sem er einn forvígismanna samtakanna Samstaða Íslendinga 1. október. Hópurinn stendur fyrir mótmælum við setningu Alþingis í dag.
„Ég býst við að margir muni koma og láta í ljós óánægju sína, ég á von á 12.000 - 20.000 manns. Mótmælin hefjast klukkan 9:30 og samstöðutónleikar hefjast klukkan tíu. Síðan verða flutt tvö lög þegar Alþingismenn ganga frá Dómkirkjunni til Alþingis. Magnús í Þeysurunum spilar drápu og síðan taka Fjallabræður við og spila Göngulagið, þar sem sungið er um skjaldborgina. „Hvar er skjaldborgin mín, hvar er hús mitt og bíll,“ segir Valþór.
Hann segist vonast til þess að mótmælin fari friðsamlega fram. Búið var að setja upp svokallaða óeirðagirðingu fyrir framan Alþingishúsið um níu leytið í morgun og lögreglumenn eru á staðnum.
„Við finnum fyrir miklum meðbyr og ætlum að halda áfram að mótmæla,“ segir Valþór.