Rótgróin verktakafyrirtæki í byggingariðnaði hafa að undanförnu neyðst til að segja upp þeim starfsmönnum sem búa yfir mestu reynslunni og lengsta starfsaldrinum, lykilstarfsmönnum, vegna skorts á verkefnum.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag bendir Friðrik Á. Ólafsson hjá Samtökum iðnaðarins á, að ekkert fyrirtæki geti starfað án lykilstarfsmanna. Fyrirtækin vilji ekki missa þá en uppsagnirnar séu varúðarráðstöfun enda sjái þau fram á verkefnaskort. Komi þær til framkvæmda sé lítið orðið eftir af viðkomandi fyrirtækjum enda geti þau vart starfað án sinna mikilvægustu starfsmanna.
Margir afar reynslumiklir menn hafi þegar misst vinnuna og margir þeirra hafi flutt til útlanda í kjölfarið. Þungt hljóð sé í byggingarverktökum. Nánast engin verkefni séu í vinnslu og ekkert í pípunum.