Í könnun, sem gerð var á biðtíma eftir kransæðaþræðingu og liðskiptaaðgerða á mjöðm og hné kom í ljós að greinilegur munur var á biðtíma karla og kvenna.
Á tímabilinu 2009 til 2010 voru slíkar valaðgerðir 1328 á Landspítala, þar af voru 66% karlmenn og konur 34%. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að meðalbiðtími kvenna var lengri en meðalbiðtími karla í öllum forgangsflokkum en mestur munur var þegar bráðleiki aðgerðar er innan mánaðar, þá var biðtími kvenna hlutfallslega 24% lengri en biðtími karla.
Um var að ræða tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð, sem unnið var á Landspítala til að skoða hvort að þeir fjármunir, sem veitt er til þessara aðgerða, komi báðum kynjum jafnt til góða.
Fjallað er um þetta í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Segir þar að skýringar á mismunandi biðtíma séu ekki ljósar og því sé ástæða til ítarlegri rannsóknar og greiningar á orsökum áður en hægt er að draga frekari ályktanir og meta hvort eðlilegar ástæður séu fyrir kynjamuninum eða hvort um raunverulega kynjaskekkju sé að ræða.